Minning um félaga

Guðný Kristíana Valdimarsdóttir
Fædd 7. júlí 1937
Dáin 17. janúar 2015
Útför frá Fossvogskirkju 28. janúar 2015

Látin er Guðný Kristíana Valdimarsdóttir félagi okkar í Golfklúbbi Hveragerðis. Guðný og Steingrímur eiginmaður hennar voru meðal stofnanda golfklúbbsins, áberandi í starfsemi hans og lögðu af mörkum mikið og óeigingjarnt starf við að koma klúbbnum á legg.

GMATIVCFKlúbburinn var stofnaður árið 1993 en í nokkur ár þar á undan hafði hópur áhugamanna staðið að undirbúningi. Fyrstu árin var unnið þrekvirki við uppbyggingu golfvallar í Gufudal frá grunni og við að breyta gömlum útihúsum í aðstöðuhús fyrir klúbbinn. Afrakstur þeirrar vinnu er sá að nú er í Gufudal vinsæll og vel hirtur níu holu golfvöllur í skemmtilegu umhverfi.

Það er mikilvægt fyrir hvert samfélag að íbúar og gestir hafi aðgang að aðstöðu til íþrótta og útivistar. Góð aðstaða til golfiðkunar og öflugt félagsstarf henni tengd hefur talsvert aðdráttarafl enda hefur uppbygging verið mikil út um allt land undanfarin ár. Þessi uppbygging kemur hins vegar ekki að sjálfu sér. Hún verður vegna þess að það koma fram áhugasamir menn og konur sem eru tilbúin að vera í fararbroddi, leiða starfið og vinna sjálfboðastarf. Við félagar í golfklúbbnum, Hvergerðingar og nærsveitamenn standa í mikilli þakkarskuld við þann öfluga hóp sem stofnaði Golfklúbb Hveragerðis og byggði hann upp.

Steingrímur var formaður klúbbsins fyrsta árið og fór lengi fyrir vallarnefnd klúbbsins, var drífandi og stýrði af festu framkvæmdum, öflun tækjakosts og umhirðu vallarins. Guðný var aldrei langt undan, tók virkan þátt í starfseminni, lagði margt gott til og sá til þess að í skálanum væri eitthvað matarkyns á mörgum vinnudögum. Það má segja að í hugum félagsmanna hafi Guðný verið mamma klúbbsins, enda var hún oft kölluð það. Hún naut mikillar virðingar og var vel viðeigandi að hún var gerð að heiðursfélaga klúbbsins fyrir nokkrum árum.

Þegar völlurinn var kominn í notkun var gaman að sjá þau hjónin njóta þess að leika golf á vellinum sem var þeim svo kær. Þau voru gjarnan á golfbíl og þekktu völlinn manna best. Eftir að Steingrímur féll frá hélt Guðný áfram tryggð við klúbbinn til síðasta dags, lék golf, tók þátt í mótum og félagsstarfi. Baldur sonur þeirra hjóna sá til þess að Guðný kæmist á staðinn og ók oftast golfbílnum. Hann fór svo að taka þátt í golfleiknum með henni.

Ég kynntist Guðnýju löngu áður en ég fór að stunda golf, hún var líklega ein af fyrstu íbúunum í Hveragerði sem ég kynntist eftir að ég flutti til Hveragerðis. Þegar ég kom fyrst upp á golfvöll var notalegt að hitta þar fyrir þessa mætu konu. Hún tók á móti mér og minni konu opnum örmum og sýndi því mikinn áhuga að við hjónin værum að þreifa fyrir okkur í íþróttinni. Ég var líka svo heppinn að spila einn af mínum fyrstu golfhringjum með henni. Reyndist hún mjög þægilegur meðspilari fyrir byrjandann og hvatti hann með uppbyggilegum hætti, þrátt fyrir að spilamennskan hafi ekki verið merkileg hjá mér. Guðný átti drjúgan þátt í þeirri upplifun okkar að við værum velkomin í klúbbinn.

Fyrir hönd Golfklúbbs Hveragerðis sendi ég aðstandendum Guðnýjar samúðarkveðjur.

Auðunn Guðjónsson formaður GHG.

Leave a Reply