Minning um góðan vin

Fallinn er frá kær félagi í Golfklúbbi Hveragerðis, Jón Hafsteinn Eggertsson.

Jón var einn af stofnfélögum klúbbsins og einn af máttarstólpunum í félagsstarfinu og þegar taka þurfti til hendinni við hin ýmsu verkefni í gegnum tíðina, jafnframt var Jón heiðursfélagi í golfklúbbnum.
Hann lét sig ekki vanta ef á þurfti að halda og meðan hann hafði heilsu til.  Sem dæmi um tryggð hans við klúbbinn þá kom hann akandi úr Reykjavík og fór jafnvel Nesjavallaleiðina til Hveragerðis ef Hellisheiðin og Þrengslin voru lokuð vegna ófærðar.  Alltaf mætti hann á staðinn fyrstur manna og fór síðastur.

Það var alltaf gleði og léttleiki í kringum Jón en maður fann strax að það var mikill nagli í honum og hann var mikið hörkutól.  Hann var gagnrýninn en á sinn jákvæða og skemmtilega hátt, alltaf boðinn og búinn og hélt öllum saman í skemmtilegheitum.  Hann var mikill töffari í sér og það sást og fannst, en mikið ljúfmenni og yndislegur karakter sem vildi öllum vel.

Þín verður sárt saknað kæri vinur og félagi og gömlu spilafélagarnir þínir sakna þín mikið eins og við öll sem náðum að kynnast þér.

Hafðu það gott í sumarlandinu kæri vinur og takk fyrir allt – minningin um góðan félaga og vin mun lifa.

Við efumst ekki um það að þú ert strax búinn að koma þér í 10:40 ráshópinn í sumarlandinu.

Hvíl í friði kæri vinur.

Stjórn Golfklúbbs Hveragerðis

Leave a Reply