Minning um góðan vin

Fallinn er frá góður félagi okkar í Golfklúbbi Hveragerðis, Hjörtur Lárus Harðarson.

Hjörtur hefur verið félagi í GHG frá árinu 2018 er hann var þá nýfluttur í Hveragerði. Hjörtur þekkti ekki marga þegar hann kom í klúbbinn en honum var vel tekið frá fyrstu stundu af félagsmönnum GHG. Sérstaklega spiluðu þeir mikið saman hann og Ævar Axelsson, einn af stofnendum GHG.
Hjörtur var alltaf mjög stundvís á rástímana sína og mætti vel fyrir tímann til að fá sér sína samloku með rækjum og kaffi. Átti það svo til að fá sér einn kaldan eftir hring ef vel gekk.
Hann var staðfastur og einarður í skoðunum sínum á starfi klúbbsins og bar hag hans mjög fyrir brjósti. Þrátt fyrir erfið veikindi undanfarið hélt hann ótrauður áfram spilamennsku af miklum dugnaði og allt fram til síðustu stundar.
Eftir að veikindin hófust, var greinilega alltaf markmiðið hjá honum að komast aftur út á völl. Dugnaðurinn og ákveðnin vakti athygli og aðdáun annarra félagsmanna og augljóst að Hjörtur ætlaði ekki að láta erfiðleikana stoppa sig við sína golfiðkun.
Alltaf var hann boðinn og búinn að svara kallinu þegar leita þurfti til félagsmanna með verkefni sem sneru að starfinu hvort sem það voru vinnudagar eða mót og skemmtanir sem haldið var á vegum klúbbsins.

Þín verður saknað kæri vinur og félagi.

Hvíl í friði.

Stjórn Golfklúbbs Hveragerðis

Leave a Reply