Í vetur hefur verið unnið að uppfærslu og breytingum á heimasíðu Golfklúbbs Hveragerðis www.ghg.is og ný heimasíða verður opnuð á næstu klukkustundum. Á síðunni koma fram ýmsar upplýsingar um starfsemi klúbbsins, golfvöllinn, félagsstarfið, fréttir af mótum og öðrum atburðum, fundargerðir, gjaldskrá o.fl.
Erlingur Arthúrsson varaformaður klúbbsins hefur séð um hönnun og vinnu við uppsetningu síðunnar og eru honum færðar þakkir fyrir.
Nýja síðan á að vera auðveldari og ódýrari í rekstri en sú fyrri og verður hún nýtt til upplýsingagjafar jafnt til félagsmanna, gesta klúbbsins og annarra áhugasamra, en auk þess verður facebooksíða klúbbsins og tölvupóstur nýttur áfram í þeim tilgangi.
Minnum á næsta mót í Hole in One puttmótaröðinni í Hamarshöllinni á laugardagsmorgun, rástímar milli kl. 10 og 12. Skráning á staðnum og allir velkomnir.
Laugardaginn 28. febrúar höfum við aðgang að gervigrasvellinum á sama tíma og mótið fer fram og getum því tekið með okkur kylfur til að æfa sveifluna hvort heldur er með því að slá út á gervigrasið eða í net.
Þá er vert að minna á að það styttist í sumarið!
Bestu kveðjur,
Auðunn Guðjónsson formaður GHG