Upphaf golfiðkunar í Hveragerði má rekja til miðrar síðustu aldar því á árunum 1954 til 1962 var 9 holu golfvöllur í landi Fagrahvamms sem Golfklúbbur Árnesinga starfrækti. Á þessum tíma var m.a. hluti Íslandsmótsins 1956 haldið á vellinum jafnframt því sem leikið var á golfvelli GR í Öskjuhlíð.
Árið 1987 kom saman áhugamannahópur um golfíþróttina. Þessi undirbúningshópur fékk fljótlega augastað á jörðinni Gufudal fyrir innan Hveragerði sem golfvallarstæði en hún var í eigu ríkisins og ekki í ábúð.
Golfklúbbur Hveragerðis var síðan stofnaður 21.júní 1993 og mættu um að bil 30 manns á stofnfund klúbbsins. Margir þeirra höfðu leikið á Strandavelli og á golfvelli sem var í Alviðru. Það var síðan 1995 sem skrifað var undir samningi við Landbúnaðarráðuneytið um leigu á jörðinni Gufudal.
Hannes Þorsteinsson hannaði frumdrög að vellinum með það fyrir augum að honum yrði komið fyrir beggja vegna Varmár. Árið 1995 hófu Hvergerðingar að leika á sex holum í Gufudal og þrjár holur til viðbótar voru teknar í notkun aldamótaárið 2000.
Gufudalsvöllur í Hveragerði var síðan formlega vígður sumarið 2002.
Golfvöllurinn í Gufudal er að mörgu leyti afar sérstakur. Hann í fallegu og sérkennilegu umhverfi með hindrunum sem sjást óvíða á golfvöllum, opnum hverum sem ekki hvað síst setja sterkan svip á völlinn ásamt ánum tveimur, Sauðá og Varmá. Land vallarins er í tveimur sveitarfélögum, Ölfusi og Hveragerðisbæ. Klúbburinn hefur yfir að ráða skemmtilegu landi undir 18 holu golfvöll og bíður sú stækkun réttrar tímasetningar. Markmið klúbbsins nú er fyrst og fremst að hafa þær 9 holur sem fyrir eru í hópi þeirra bestu á landinu.
Eins og raunin er með gerð flestra golfvalla hér á landi á hópur áhugasamra hugsjónamanna heiðurinn af gerð Gufudalsvallar. Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa komið þar við sögu og lagt drjúga hönd á plóg og segir sagan að í fáum klúbbum hafi jafn margir sjálfboðaliðar lagt sitt af mörkum. Sem dæmi um þá miklu vinnu sem leggja þurfti í við völlinn má nefna að 4-5 þúsund rúmmetrum af jarðvegi var ekið í fimmtu braut vallarins sem liggur í hrauni. Í kjölfarið var kallaður til mannskapur sem handlagði þökur í alla brautina. Ónefndur kylfingur sem þar lagði sitt af mörkum sagðist vísvitandi slá út í hraunið til að hlífa þökunum þar sem svo mikil vinna hafi farið í að leggja þær. Golfklúbbur Hveragerðis hefur notið góðs af velvilja ýmissa styrktaraðila og fékk til að mynda fjölmörg tré að gjöf, þar á meðal fjögurhundruð plöntur, mest víði og birki, sem Dvalarheimilið Ás gaf klúbbnum og voru þær allar gróðursettar við völlinn.
Gamalt fjós stóð í Gufudal og lögðu klúbbfélagar mikla vinnu í að gera það að heimilislegum golfskála.
Félögum í klúbbnum hefur fjölgað ört. Fjöldi kylfinga á höfuðborgarsvæðinu leggur leið sína austur fyrir fjall til þess að leika á Gufudalsvelli.