Kæru félagsmenn í GHG,
bestu óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár til ykkar og fjölskyldna ykkar með þökk fyrir liðið ár.
Stjórn golfklúbbsins boðaði aðalfund golfklúbbsins fyrir síðasta starfsár þann 21.desember sl. en vegna aðstæðna sem við þekkjum öll var honum frestað. Áformað er að halda aðalfundinn fimmtudaginn 13. janúar kl 20 og verður hann fjarfundur – en aðstæður í þjóðfélaginu leyfa því miður ekki að við séum að hittast í stórum hópum í raunheimum. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda fundinn sem fyrst svo stjórn og starfsmenn geti undirbúið sem best komandi sumar og þá vinnu og framkvæmdir sem vinna þarf fyrir sumarið og vonumst við eftir að sjá ykkur sem flest á þessum aðalfundi.
Það hefur töluvert verið spurt um golfherminn á Facebook síðu klúbbsins og er það vel skiljanlegt, en aðstaðan er ekki fullbúin en á lokametrunum eins og kom fram í pistli frá Einari rekstrarstjóra í gær.
Það er stefna okkar að klára allt sem þarf áður en opnað verður fyrir spilun, einfaldlega vegna þess að við viljum ekki bjóða uppá hálfkláraða aðstöðu handa okkar félagsmönnum og ef hlutirnir eru ekki kláraðir strax þá vill eitt og annað sitja á hakanum.
Það er mikill hugur í okkur varðandi herminn og að koma honum í rekstur sem allra fyrst.
Ásamt því að klára aðstöðuna og ýmsar fínstillingar varðandi herminn, þá erum við að vinna í því hvernig við getum sem best hagað framkvæmdinni við bókanir og spilun þannig að hlutirnir verði einfaldir og notendavænir. Ég á von á að við getum verið með góðar fréttir mjög fljótlega .
Með golfkveðju
Vignir Demusson
Formaður GHG