Barna-og Unglinganefnd

 

Tekið af gömlu heimasíðu GHG

5.12.2013

Barna- og unglingastarf Golfklúbbs Hverageragerðis 2013

Starfið hófst strax í byrjun árs með inniæfingum í Hamarshöllinni en hún hefur gjörbreytt allri aðstöðu til æfinga eins og gefur að skilja. Einar Lyng þjálfaði rúmlega 10 manna hóp sem æfði einu sinni í viku. Í vor fór svo hluti hópsins í æfingaferð til Spánar og golfaði þar við kjöraðstæður en hópurinn hafði fjáraflað fyrir ferðinni síðan sumarið 2013 með margvíslegum hætti.

palli Í vor hófust svo útiæfingar undir styrkri stjórn Ingvars Jónssonar, þjálfaranema við PGA skólann á Íslandi. Ingvar sýnd strax metnað í starfi og náði vel til krakkana sem hafa verið hæst ánægð með hans störf. Ingvar fylgdi sveit pilta 15 ára og yngri sem keppti í sveitakeppni GSÍ á Hellishólum með góðum árangri en sveitna skipuðu þeir Fannar Ingi Steingrímsson, Jón Bjarni Sigurðsson, Björn Ásgeir Ásgeirsson og Pétur Sigurdór Pálsson. Þeir Guðjón Helgi Auðunsson og Birgir Busk kepptu í sameiginlegri sveit GHG og GOS á Hellu sömu helgi og Melkorka Sigurðardóttir keppti með sameiginlegri sveit GS, Kjalar og GHG á Flúðum. Melkorka varð svo stigameistari GSÍ á áskorendamótaröðinni í sínum flokki. Birgir Busk varð í öðru sæti á meistaramóti GHG og komst þar af leiðandi í sveit fullorðinna. Jón Bjarni sigraði í 2. flokki fullorðinna  – á skori sem hefði tryggt honum 3. sætið í meistaraflokki! Efnilegir krakkar þarna á ferð…

Barna – og ungingastarfið skiptist í tvo hópa í sumar, annars vegar afrekshópinn og hins vegar byrjendahóp. Frekar fámennt var á nýliðanámskeiðum þetta sumarið og voru því miður ekki margir sem stunduðu morgunaæfingar. Þetta er áhyggjuefni, þ.e.a.s hve nýliðun er lítil. Í eins litlum bæ og Hveragerði er ljóst að golfið er að berjast við aðrar íþróttagreinar um þátttakendur. Þrátt fyrir að fækkun sé staðreynd í fjölmennum iðkendagreinum eins og fótbolta hefur okkur ekki tekist að fjölga með verulegum hætt síðustu ár. Eðlilegt er að leita skýringa á því en þær eru að öllu líkindum blanda af nokkrum þáttum. Margir golfklúbbar eru að glíma við þetta sama, vandamál við nýliðun í barna- og unglingastarfi. Veðrið í sumar var ekki sérlega hvetjandi fyrir krakka, hugsanlega sigraði leikjatölvan íþróttirnar í ár. Fjármálaástandið gæti líka haft einhver áhrif en svo verðum við líka að líta í eigin barm og spyrja hvað við getum gert til að auka áhuga ungs fólks á golfíþróttinni? Hvernig getum við höfðað til verðandi golfiðkenda í Hveragerði og Ölfusi? Verðum við ekki að beita öðrum aðferðum en við höfum reynt fram að þessu?

fannaringiÞáttur Fannars Inga Steingrímssonar í barna- og unglingastarfi GHG, sem og í öllu almennu starfi árið 2013 er mjög veigamikill, sem og fyrri ár. Árangur hans er gríðarlega eftirtektarverður, má þar helst nefna hringinn stórkostlega sem hann lék á GSÍ mótaröð unglinga á Strandavelli í byrjun sumars. Þar lék Fannar lokahringinn á 61 höggi – 8 fuglar og hola í höggi – hvorki meira né minna! Þessi hringur tryggði Fannari sigur á mótinu en hann var nýkominn heim úr keppnisferð þegar þetta mót fór fram. Fannar lék á mótum í Skotlandi og í Bandaríjunum í ár með góðum árangri og þessa dagana er hann við nám í þekktum íþróttaskóla í Flórida í Bandaríkjunum – IMG Íþrótta Akademíunni. Fannar lék einnig með landsliði unglinga í Slóvakíu í haust og náði þar 2. sæti í sínum aldurflokki í undankeppni fyrir Evrópumót landsliða. Íslenska liðið tryggði sér sæti í úrslitum Evrópumótsins með frábærri framistöðu og er ljóst að Fannar á mikinn þátt í velgengni þess.

Á tuttugu ára afmæli GHG í sumar var klúbbnum færð höfðingleg gjöf frá Dvalarheimilinu Ási, 80 þúsund krónur sem eiga að renna óskiptar til barna- og unglingastarfsins. Ákveðið hefur verið að nota þessa gjöf til þess að fjárfesta í svokölluðum SNAG golfkennslubúnaði, sem er framleiddur með yngstu iðkendurna í huga. Vonir standa til að hægt verði að festa kaup á slíkum búnaði og hefja notkun hans með hækkandi sólu 2014. Búnaðinn er hægt að nota í Hamarshöllinni en einnig hefur hann verið notaður í íþróttakennslu í grunnskólum og stefnt er að því að nemendur Grunnskólans í Hveragerði fái kynningu á golfíþróttinni með aðstoð SNAG búnaðarins. Einnig er stefnt að því að kynna hann fyrir nemendum í félagsmiðstöðinni þegar vorið fer að nálgast.

Annað sem gæti nýst okkur  í tilraunum til að fjölga í barnastarfinu er notkun golfvallarins á Hótel Örk. Í þeim bæjarfélögum þar sem vel hefur til tekist með nýliðun er í mörgum tilfellum notast við litla golfvelli nálægt eða í kjarna bæja – velli sem þurfa ekki endilega að vera í hæsta gæðaflokki heldur miklu frekar að vera innan seilingar.Í einhverjum tilfellum getur ferðalagið neðan úr bæ og upp í Gufudal ekki einungis virkað fráhrindandi heldur beinlínis verið hrein og klár fyrirstaða. Því er það mitt álit að næsta sumar eigi leikjanámskeið og jafnvel byrjendanámskeiðin að fara fram á Arkarvellinum. Hægt væri að fara með hópana í heimsóknir í Gufudal til að krakkarnir kynnist andrúmsloftinu og aðstæðunum sem þar eru fyrir hendi. Þetta snýst aðallega um að byggja til brú frá bænum og upp í Gufudal.

Einhvernveginn virðist vegalengdin neðan úr bæ og upp í dal líka vefjast fyrir Hvergerðingum sem vaxnir eru upp úr barnastarfinu því að mínu mati gengur okkur í GHG illa að virka barnafólk til að hefja golfiðkun, en það eru bæði gömul sannindi og ný að kynslóðirnar draga hverja aðra á völlin. Því vil ég gera það að tillögu minni að ný stjórn geri gangskör í því að höfða til fjölskyldufólks í Hveragerði með það að markmiði að fjölga þeim hópi.

Ingvar Jónsson hefur sýnt krökkunum okkar í GHG mikla athygli og verið frábær þjálfari í sumar og vetur en við hófum æfingar fyrir næsta tímabil nú í nóvember í Hamarshöllinni. Það er von mín að samningar náist við Ingvar fyrir 2014, hann mun að minnsta kosti stýra æfingum fram á vor og svo vonandi líka sólskinsumarið 2014. Ingvar tók starfið 2013 saman í bréfi í fáum orðum sem hér birtast:

„Sumarið hjá okkur gekk mjög vel. Krakkarnir voru duglegir og þau börðust í gegnum rigningu og kulda æfingu eftir æfingu eins og hetjur. Nýliðunin hefði mátt vera meiri en hópurinn sem við höfum er þó samheldinn og skemmtilegur. Óhætt er að segja að flestir hafi lagt sig fram þetta sumarið og mæting var nokkuð góð hjá eldri hópnum en huga þarf betur að þeim yngri að mínu mati og finna þarf leið til að fjölga yngri kylfingum í hópnum og mætti t.d. fara þá leið að hafa æfingar alfarið á Hótel Örk svæðinu, fá að setja þar stórar holur líkt og er hjá Kili, notast við SNAG golf eða eitthvað í þessa átt. Golfvöllurinn er að mínu mati of langt frá bænum þegar æfingar barna eru á vinnutíma foreldra.

                Krakkarnir kepptu á mörgum mótum í sumar, sumir á Áskorendamótaröðinni en aðrir á Íslandsbankamótaröðinni. Öll stóðu þau sig með prýði en má þar fremastan telja Fannar Inga Steingrímsson sem setti m.a. vallarmet þegar hann vann stigamótið á Hellu. Hann stóð sig einnig mjög vel á öðru stigamóti sínu á Eimskipsmótaröð fullorðinna þar sem hann lék í lokaholli og endaði í 6. sæti sem hlýtur að vera einhverskonar met í sögu mótaraðarinnar fyrir 15 ára dreng. Fannar Ingi endaði 8 á stigalista GSÍ sem er flottur árangur miðað við það að hann er á yngra ári. Fannar stóð sig einnig mjög vel á erlendri grundu á árinu bæði í einstaklingsmótum sem og í landsliðsferðum. Birgir Rúnar Steinarsson Busk og Björn Ásgeir Ásgeirsson léku einnig á Íslandsbankamótaröðinni í sumar og var Björn Ásgeir að leika í fyrsta sinn. Melkorka Elín Sigurðardóttir lék á Áskorendamótaröðinni og sigraði sinn flokk og endaði efst á stigalista mótaraðarinnar, Jón Bjarni Sigurðsson lék einnig á Áskorendamótaröðinni og endaði í 9. Sæti á stigalistanum. Pétur Sigurdór Pálsson tók einnig þátt á Áskorendamótaröðinni en hann er einungis 11 ára gamall og því gott veganesti fyrir framtíðina.

                GHG sendi frá sér lið í sveitakeppni í þremur unglingaflokkum. Melkorka Elín lék í sameinaðri sveit GKj/GS og GHG en stelpurnar enduðu í 2. Sæti á Flúðum, Birgir Rúnar Steinarsson Busk og Guðjón Helgi Auðunnsson léku með sveit GOS á Hellu og þeir Fannar Ingi Steingrímsson, Jón Bjarni Sigurðsson, Björn Ásgeir Ásgeirsson og Pétur Sigurdór Pálsson léku fyrir hönd GHG á Hellishólum.

                Á æfingum sumarsins er óhætt að segja að allir hafi staðið sig vel og eins og ég sagði hér að ofan mætt nokkuð vel á æfingar. Framar öðrum verða þó að teljast tveir drengir sem mættu ekki einungis best á unglingaæfingar heldur mættu þeir einnig á margar yngri æfingar á morgnanna og voru svo ósjaldan sjálfir að æfa allan tíman þar á milli, hugsanlega með örlítilli pásu þar sem gott er að komast aðeins inn í nesti hjá henni Ástu í golfskálanum. Þetta voru þeir Björn Ásgeir Ásgeirsson og Pétur Sigurdór Pálsson. Strákarnir mættu ekki bara vel á æfingar heldur voru þeir klúbbnum, þjálfara, meðspilurum og síðast en ekki síst sjálfum sér til sóma. Brennandi áhugi og vilji til að læra keyrir Björn Ásgeir áfram á meðan Pétur Sigurdór býr yfir ómældri leikgleði, smitandi jákvæðni og ótrúlegum drifkrafti eins og sjá mátti í sveitakeppninni á Hellishólum.

                Það er af þessum ástæðum og að öðrum ólöstuðum sem ég tel að Björn Ásgeir og Pétur Sigurdór eigi að hljóta ástundunar og háttvísisverðlaunin að þessu sinni.“

Ingvar Jónsson 2013

 

Páll Sveinsson

Formaður barna- og unglingaráðs GHG

5.6.2013

Leikjanámskeið og æfingar barna og unglinga

Sjá allt um æfingar og námskeið á flipunum hér til vinstri

17.5.2012

Hvers vegna Golf?

Af barna og unglingastarfi Golfklúbbs Hveragerðis oghegðun og heiðarleika
Golfíþróttin hefur notið mikill vinsælda á Íslandi síðustu ár og er nú svo komið að hún er næst vinsælasta  íþróttagreinin hér á landi. Á Suðurlandi eru fjölmargir golfklúbbar og golfvellir, sennilega erum við Sunnlendingar hvað best í sveit settir hvað fjölda valla á landinu varðar en í þessum landshluta má finna fjölda glæsilegra golfvalla. Félagslífið í kringum starfsemi þessara klúbba blómstrar og nú er svo komið að hundruð sunnlenskra ungmenna stunda golfíþróttina af kappi, allt árið um kring, þökk sé sífellt betri aðstæðum til golfiðkunnar. En hver gæti ástæðan verið fyrir þessum miklu vinsældum golfsins? Krakkarnir sækja í félagsskapinn sem er af öðrum meiði en sá sem fylgir boltaíþróttunum sem eru ekki fyrir alla. Hreyfingin er líka mikil, átta til tíu kílómetrar eru gengnir um holt og hæðir þegar átján holu golfhringur er leikinn. En svo eru það foreldrarnir sem hrífast af golfinu vegna þeirra gilda sem þar eru í heiðri höfð. Hér eru talin upp tíu góðar ástæður fyrir því af hverju foreldrar ættu að hvetja sín börn til golfiðkunnar.

  1. Auðmýkt og virðing. Golfið fer fram á að iðkendur þess sýni hverjum öðrum virðingu, jafnt innan sem utan vallar. Auðmýkt fyrir náttúrunni, virðingu fyrir þér og öðrum með heiðarleika og kurteisi að leiðarljósi.
  2. Stundvísi. Á hverjum degi leika hundruð iðkenda golfvelli landsins. Til þess að slíkt geti farið fram með eðlilegum hætti og án árekstra er farið fram á rástímaskrániningu. Ef tímar skráningarinnar eru ekki virtir missir þú af þínum hring. Sama gildir um mót, ef þú mætir ekki á réttum tíma tekur þú ekki þátt.
  3. Heiðarleiki. Börn læra heiðarleika af golfi, svind líðst ekki og þátttakendur læra að taka ábyrgð á sinni hegðun og framkomu á golfvellinum.
  4. Öryggi. Golfkylfur og boltar geta verið hættuleg tæki ef þeim er ekki rétt beitt. Lögð er áhersla á að iðkendur séu meðvitaðir um það og að þeir hugi að öryggi og gæti þess hið fyllsta við sína golfiðkun. Þetta læra iðkendur og heimfæra á aðra þætti lífsins.
  5. Þögn. Golfíþróttin krefs mikillar einbeitingar. Svo slík einbeiting náist er nauðsinlegt að iðkendur fái næði til að einbeita sér á meðan golfhögg er slegið. Þá læra börn að sýna hverju öðru virðingu og tillitssemi.
  6. Ímyndunarafl. Kylfingar læra að virkja ímyndunaraflið hvort sem það er daginn fyrir mót, í leik eða við æfingar. Fyrir hvert skot þarf að sjá hvaða afleiðingar val á verkfæri (kylfu) og hvernig skotið er framkvæmt hefur á útkomuna.
  7. Vandamálalausnir. Tré, vindur, rigning, sandglompur og skurðir eru hluti af golfleiknum. Barn sem lærir að takast á við vandamál í leik er líklegra til að geta brugðist við vandamálum sem koma upp í hinu daglega lífi.
  8. Einbeiting. Eins og áður hefur komið fram krefst golfið einbeitingar. Þrátt fyrir mikla einbeitingu er eðli golfíþróttarinnar þannig að auðvelt er að gera mistök. Golfið kennir sínum þátttakendum að mistök eru hluti af leiknum og þeim ber að taka af auðmýkt en ekki láta þau brjóta sig niður.
  9. Æfing, þrautsegja og hlustun. Afar sjaldgæft er að árangur náist í golfi strax í upphafi. Til þess að ná árangri verða iðkendur að æfa mikið og halda æfingum stöðugum og til streitu ásamt því að vera opnir fyrir tilsögn. Börn sem tileinka sér þetta eru reiðubúin í áskoranir hins daglega lífs.
  10. Tignarleiki. Í golfinu læra börn virðingu fyrir fullorðnum og hverju öðru. Í lok hvers golfhrings takast þátttakendur í hendur, barn (iðkandi) hlær ekki að óförum keppinautar né sýnir honum vanvirðingu á annan hátt.

 

Öflugt barna- og unglingastarf í Golfklúbbi Hveragerðis

Í beinu framhaldi af þessari umfjöllun um hvað golf getur kennt börnum og öðrum þátttakendum er gaman að segja frá nýju verkefni sem var hleypt að stað síðastliðið haust á vegum GHG. Á dögunum voru tvö ungmenni verðlaunuð fyrir ástundun, heiðarleika og góða framkomu  golfárið 2011. Þetta eru þau Guðjón Helgi Auðunsson og Katrín Eik Össurardóttir en þau hljóta í hvatningarverðlaun viku æfinga- og golfferð til Long Island í New York fylki Bandaríkjanna í júní. Á hverju ári verða tveir einstaklingar af báðum kynjum  verðlaunaðir með þessum hætti og er stefnt á að koma upp ungmennaskiptum við golfklúbba í Bandaríkjunum í nánustu framtíð. Með þessu vill stjórn Golfklúbbs Hveragerðis ýta undir þessi þrjú mikilvægu gildi – ástundun, heiðarleika og hegðun.

Þriðjudaginn 15. maí hefjast barna- og unglingaæfingar GHG í Gufudal ofan Hveragerðis, þjálfari í sumar verður  Einar Lyng, PGA menntaður golfkennari. Á meðan skólar starfa fram í júní verður æft tvisvar í viku – á þriðjudögum og föstudögum en í júníbyrjun munu barnaflokkur æfa þrisvar í viku og unglingaflokkur tvisvar. Æfingatímana og æfingagjöld má finna á heimsíðu GHG (www.ghg.is). Byrjendanámskeið hefjast fyrstu vikuna í júní og verður hægt að finna upplýsingar um þau á heimasíðu GHG og Hveragerðisbæjar.

Síðustu tvö sumur hefur barna- og unglingastarfi í Hveragerði  vaxið fiskur um hrygg, ekki hvað síst fyrir tilstuðlan frábærra þjálfara. Selfyssingarnir Gylfi Birgir Sigurjónsson og Hlynur Geir Hjartarson þjálfuðu síðastliðin tvö ár við góðan orðstýr og eiga þeir sinnn þátt í uppbyggingunni. Einnig má nefna öflugt foreldrastarf sem hefur verið til fyrirmyndar. Síðustu tvö ár hafa krakkarnir safnað fé til búningakaupa og golfferðar sem hefur verið farin að hausti. Þetta hafa krakkarnir m.a. gert með áheitasöfnun tengdri golfmaraþoni og  einnig með dósasöfnun.  Nú er svo komi ð að Hveragerðingar eiga mjög efnilega kylfinga, má þar nefna Fannar Inga Steingrímsson og Guðjón Helga Auðunsson sem hafa æft með landsliðsúrvali Suðurland undir handleiðslu Hlyns Geirs Hjartarsonar. Einnig hefur Fannar Ingi sótt landsliðsæfingar í Reykjavík ásamt því að taka þátt í mótaröðum erlendis sem og hér heima á Íslandi.

Nú á vordögum var ákveðið að hefja söfnun fyrir Spánarferð vorið 2013. Þá verður farið í æfingaferð á suðrænar slóðir meðan vetur konungur lýkur sínu starfi og  golfvellir landsins eru enn í dvala. Framundan eru fjölbreytt verkefni, má þar nefna Suðurlandsmótaröðina sem fram fer á Flúðum, í Hveragerði, á Selfossi  og í Vestmannaeyjum. Einnig unglingalandsmótið sem fram fer Verslunarmannahelgina á Selfossi og svo sveitakeppni GSÍ sem fram fer í ágúst. Við viljum hvetja alla sem áhuga hafa á að æfa með Golfklúbbi Hveragerðis að koma sem fyrst á æfingar og taka þátt í því frábæra starfi sem þar fer fram.

 

Páll Sveinsson

Formaður barna- og unglingaráðs GHG

 

Leave a Reply