Lög Golfklúbbs Hveragerðis

Samþykkt á aðalfundi 2018

1. gr. – Heiti
Félagið heitir Golfklúbbur Hveragerðis, skammstafað GHG. Heimili og varnarþing er í Hvergerði. Klúbburinn er aðili að Héraðssambandi Skarphéðins og Golfsambandi Íslands og því háður lögum, reglum og samþykktum íþróttahreyfingarinnar.

2. gr. – Markmið
Tilgangur klúbbsins skal vera að efla áhuga á golfíþróttinni og skapa sem besta aðstöðu til að iðka hana.

3. gr.- Félagsmenn
Félagið er opið öllum þeim sem starfa vilja innan vébanda þess í samræmi við gildandi lög og reglur þess. Inntökubeiðnir skulu vera skriflegar. Inngöngu í klúbbinn fá umsækjendur að fenginni samþykkt klúbbstjórnar. Um félagsaðild og önnur skyld mál, skal farið að lögum GSÍ og ÍSÍ.Úrsögn úr klúbbnum skal vera skrifleg og miðast við áramót.

4.gr. – Aðalfundur
Aðalfundur er æðsta vald í málefnum klúbbsins og skal haldinn eigi síðar en í desember ár hvert, og skal boða til hans með tölvupósti og á vefsvæði klúbbsins með a.m.k. sjö daga fyrirvara. Klúbbnum er einnig skylt að halda lista og senda bréflega út eftir honum til þeirra félagsmanna sem það kjósa. Aðalfundur er löglegur sé hann boðaður sem fyrir er mælt. Atkvæðisrétt á fundum klúbbsins hafa skuldlausir félagar.

5. gr. – Dagskrá aðalfundar
Skýrsla stjórnar
Reikningar liðins árs
Ákveðin félagsgjöld næsta árs
Fjárhagsáætlun næsta árs
Lagabreytingar
Kosningar
Önnur mál

6 gr. – Stjórn klúbbsins
Stjórn klúbbsins skipa sjö félagsmenn, formaður, gjaldkeri og fimm meðstjórnendur kosnir á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, þrír eru kosnir hvert ár. Kosning skal vera leynileg sé þess óskað. Meðstjórnendur skulu jafnan vera formenn nefnda sbr.7.gr. Stjórnarmenn má endurkjósa gefi þeir kost á sér. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjósa skal 1. 2 og 3.varamann til eins árs. Gangi einhver úr stjórn áður en kjörtímabili hans lýkur skal 1. varamaður taka sæti hans til næsta aðalfundar þar sem kjósa skal aðalmann til þess tíma sem eftir er af kjörtímabilinu. Varamönnum er heimil seta á stjórnarfundi með málfrelsi án atkvæðisréttar. Kjósa skal tvo skoðunarmenn til eins árs í senn og einn til vara. Stjórn skipar í nefndir og fulltrúa á þing.

7. gr. – Nefndir
Á vegum stjórnarinnar skulu að jafnaði starfa eftirfarandi nefndir:

Vallarnefnd.
Mótanefnd.
Forgjafa- og laganefnd.
Barna- og unglinganefnd.
Kvennanefnd.

Í hverri þessara nefnda skulu vera 3-5 nefndarmenn. Nefndir skulu starfa samkvæmt sérstakri starfslýsingu sem stjórnin setur.

8. gr. – Árgjöld og vallargjöld
Sérhverjum félagsmanni er skylt að greiða árgjald til klúbbsins. Árgjöld skulu ákveðin á aðalfundi.  Stjórn klúbbsins skal leggja fram tillögu að árgjöldum og gjalddögum.

Stjórnin ákveður vallargjöld og kappleikjagjöld. Telji stjórnin brýna þörf á kostnaðarsömum framkvæmdum getur hún að fengnu samþykki félagsfundar, lagt á tímabundið framkvæmdagjald, sem félagar geta innt af hendi með peningum, vinnu eða á annan hátt sem stjórnin samþykkir.

9. gr. – Ógreidd árgjöld
Félagar fyrirgera öllum klúbbréttindum sínum séu árgjöld ekki greidd á réttum tíma.  Stjórn getur veitt undanþágu frá þessu við sérstakar aðstæður.

10. gr. – Umgengisreglur
Við golfleik skal farið eftir gildandi golfreglum á hverjum tíma. Stjórn setur sérreglur, eftir aðstæðum, svo fremi að þær brjóti ekki í bága við almennar golfreglur. Slæm umgengni innan golfvallarsvæðis, getur valdið brottvikningu úr klúbbnum og skal hún vera skrifleg og staðfest af meirihluta klúbbstjórnar.

11. gr. – Reikningsár
Reikningsár klúbbsins er 1.nóvember til 31. október.  Lagabreytingar er aðeins hægt að gera á aðalfundi og sé þeirra getið í fundarboði. Tillaga að lagabreytingu skal hafa borist stjórn klúbbsins eigi síður en 1. nóvember hverju sinni og skal vera skrifleg. Til að lagabreytingar öðlist gildi, þarf  2/3 greiddra atkvæða.

12. gr. – Félagsfundir
Stjórn boðar til almennra funda eftir þörfum eða ef tíu eða fleiri fullgildir félagar óska eftir þess skriflega og tilgreini ástæðu. Slíkan fund skal halda innan þriggja vikna frá móttöku slíkrar beðni. Til almennra funda skal boða á venjulegan hátt.

13. gr. – Félagsslit
Liggi fyrir að hætta starfsemi klúbbsins, skal boðað til sérstaks fundar þar að lútandi með tveggja vikna fyrirvara og eigi síðar en einu ári eftir að reglulegri starfsemi er hætt. Slíkur fundur er lögmætur ef helmingur félaga er mættur og 2/3 fundarmenn samþykkja slíka ákvörðun. Mæti ekki nægjanlegur fjöldi félaga, skal boðað til annars fundar innan einnar viku og telst hann löglegur um klúbbslit og ráðstöfunar á eigum klúbbsins.

14. gr.
Lög þessi öðlast gildi við samþykki aðalfundar.