Mjög góður rekstur GHG 2016 – Össur nýr formaður GHG


Aðalfundur Golfklúbbs Hveragerðis 2016 var haldinn að kvöldi þriðjudagsins 6. desember í golfskálanum í Gufudal. Góð mæting var á fundinn og kom fram mikil ánægja meðal fundarmanna með starf og rekstur klúbbsins.

Rekstur klúbbsins gekk mjög vel á árinu. Hagnaður ársins nam 9,3 milljónum kr. sem er 6,3 milljónum kr. betri afkoma en áætlun gerði ráð fyrir. Handbært fé frá rekstri nam 12,7 milljónum kr. en fjárfesting ársins nam 1,6 milljónum kr. Á árinu lækkuðu skuldir um 2,9 milljónir kr. og námu 2,2 milljónum kr. þann 31. október 2016. Handbært fé klúbbsins í lok október nam 8,6 milljónum kr. Hægt er að skoða ársreikning 2016 hér Ársreikningur GHG 2016 áritaður.

Á fundinum fór formaður klúbbsins yfir starfsemi klúbbsins á árinu og þróun rekstrar og fjárhags klúbbsins síðastliðin ár í máli og myndum. Meðfylgjandi er yfirlit um starfsemina í myndum GHG yfirlit á aðalfundi 2016 og skýrslan sem formaður flutti Skýrsla stjórnar GHG 2016.

Fundurinn samþykkti tillögu um að hækka árgjöld fyrir 2017 um 3% frá fyrra ári. Samþykkt tillaga er hér Árgjald 2017.

Þá var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 sem gerir m.a. ráð fyrir að 10,0 milljónum kr. verði ráðstafað í fjárfestingu, annars vegar 8,0 milljónum kr. í endurbætur á golfskála og hins vegar 2,0 milljónum kr. í tækjakaup. Hægt er að skoða samþykkta fjárhagsáætlun 2017 hér Fjárhagsáætlun GHG 2017.

Össur Emil Friðgeirsson var kosinn nýr formaður klúbbsins, en Auðunn Guðjónsson sem verið hefur formaður klúbbsins undanfarin þrjú ár, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Alfreð Maríusson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu eftir 13 ár í stjórn klúbbsins. Á fundinum voru kosnir tveir nýir stjórnarmenn til tveggja ára þeir Gylfi Kristinsson og Hafsteinn Bjarnason og Ingibjörg Mjöll Pétursdóttir var endurkjörin til tveggja ára. Auk framangreindra sitja í stjórn þeir Ólafur Ragnarsson, Guðmundur Erlingsson og Hjörtur Árnason. Varamenn voru kjörnir þeir sömu og árið áður, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Arnar Geir Helgason og Ásgeir Andrason.

Ólafur Dór Steindórsson hlaut Háttvísibikarinn sem var nú afhentur í fjórða skiptið.

Fannar Ingi Steingrímsson var valinn kylfingur ársins og tilnefndur til íþróttamanns Hveragerðis.

Leave a Reply